sunnudagur, 22. janúar 2017

Á þessu ferðalagi fylgjumst við að.

Ég sit stjörf fyrir framan skjáinn með tárin í augunum og óbragð í munninum. Ég hafði hugsað mér að skrifa loksins blogg í dag þar sem í dag eða síðustu daga er liðið ár síðan í lenti á flugvellinum í  Mapútó.
Ég er svosem búin að ætla að skrifa þessa færslu svo oft en aldrei hafið mig í það. Svo í dag tók ég þá ákvörðun að ég þyrfti bara að klára þetta af, þýðir ekki að fresta hlutunum endalaust.


En nú rétt í þessu breyttust hugsanir mínar og varð færslan því allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér að hafa hana.
Í dag fannst loksins stelpan sem hefur heltekið hug minn og hjarta, sem og annarra síðastliðna viku. Eins og búast mátti við eftir þann tíma sem hún hafði verið týnd fannst hún ekki heil á húfi, því miður. Elsku stelpan.
   Og hér sit ég, heil á húfi og þjáist ekki af neinu nema minni blessuðu ferðaþrá.  Ég ferðaðist þvert yfir heiminn alein og óstudd. Ég fór í allskonar fararæki, fór út og skemmti mér og var stundum úti fram yfir miðnætti þó það þætti ekki æskilegt. Ég labbaði ein heim í myrkrinu í úthverfum Mapútó, stundum pínu „tippsí“. Ég fór upp í bíl með fólki sem ég þekkti ekki neitt á tíma sem ég átti helst að vera komin heim og ég var algjört endurskinsmerki, féll alls ekki inní og öll augun beindust að mér. En þrátt fyrir allt þetta, þá sit ég hér.
Ég kom heim. Ég KOMST heim í faðm fjölskyldunnar minnar. Ég kom heim og hitti alla fallegu vini mína aftur, mætti í skemmtilegu vinnuna mína aftur. Ég er komin heim...
Ég er ekki að telja þetta upp til að gorta mig að sjálfsögðu ekki. Það eina sem flýgur í gegnum hausinn á mér akkúrat núna er VÁ hvað ég er þakklát. Það er ekki annað hægt en að vera þakklát fyrir lífið á svona stundu.
Fjölskylda Birnu á alla mína samúð og ég mun halda áfram að hugsa til þeirra eins og síðustu daga. Hvíli hún í friði þessi fallega stelpa.

Ég ætla ekki að skrifa samantektarfærsluna mína í dag. En ég ætla mér að gera það á næstu dögum, svo þið sem fylgdust með mér hérna í fyrra þið vitið að minnsta kosti af því 

Knúsum þá sem okkur eru næstir í kvöld og förum varlega. Hvert og eitt okkar er svo dýrmætt.

Ást og friður <3

-Hildur Sól

fimmtudagur, 14. júlí 2016

Er þetta í alvörunni að verða búið??

Tíminn líður svo sannarlega hratt þegar gaman er!
Nú eru einungis 16 dagar eftir af dvöl minni hérna í Mósambík og ég er ekki alveg að átta mig á því. Mér finnst ég einhvernveginn nýkomin en þegar ég hugsa til baka þá finnst mér ég hafa verið hér í mörg ár. Svo ótal margt sem ég er búin að upplifa og sjá. Þvílíkt sem ég er búin að læra bæði á heiminn og mig sjálfa. Ég finn það vel hversu mikið ég hef þroskast sem einstaklingur á þessum tíma mínum hér enda var það alltaf partur af prógramminu. Þegar maður leggur af stað í svona ferðalag er alltaf bókað mál að maður mun fylla á reynslubankann.

Ég hef verið að melta það með mér síðustu daga hvort ég sé tilbúin til þess að fara. Við þær vangaveltur koma upp allskonar tilfinningar. Til að byrja með fannst mér allt of stutt eftir því ég væri nú alls ekki búin að skila því af mér sem ég ætlaði mér með þessari heimsókn. Ég væri lítið sem ekkert gagn búin að gera og mér fannst allt hálf ómögulegt. En að hluta til leið mér þannig vegna þess hvernig hlutirnir voru í vinnunni minni. Þar var lítið sem ég gat gert þar sem skipulagið hjá yfirmönnunum þar var í lamasessi og við sjálfboðaliðarnir týndumst svoldið í þeirri krísu. Enginn vissi hver ætti að tala við okkur og bjóða okkur velkomin og útskýra fyrir okkur starfið okkar. Svo skipulagið var ekki sem best og starfið okkar varð því ekki eins mikið og é bjóst við.
En ég þurfti nú ekki að leita langt þegar ég hugsaði til baka til að finna alla þá hluti sem ég gerði með skvísunum mínum. Ég kenndi nokkrum þeirra eldri smá grunn í ensku sem þær geta alltaf nýtt. Ég tók með mér spilastokk og  við dunduðum okkur mikið við það að spila og svo gat ég líka notað hann til að auka talnaskilning hjá litlunum. Hvaða tala er stærri eða minni og smá plús og mínus. Við aðstoðuðum þær líka mikið við heimanám sem var þá aðallega skrift, stærðfræði og portúgalska. Ég tók líka með mér garn til að búa til vinaarmbönd og tók nokkra daga í að kenna þeim það sem reyndi mismikið á þolinmæðina hjá þeim. En allt sem er nýtt er gott fyrir þær að gera.
Ég tók líka með mér sippuband/snúsnú og frisbídisk. Sumar hefðu aldrei lært að kasta frisbí svo það var góð þjálfun.
Svo þetta hálfa ár er als ekki búið að vera alslæmt. Stundum er maður bara í vitlausu skapi og þarf að grafa í gegnum neikvæðu hlutina til að finna þá jákvæðu.
Svo er það tungumálið. Það setur að sjálfsögðu alltaf strik í reikninginn þegar þú talar ekki tungumálið og getur ekki útskýrt almennilega allt sem þig langar að segja. En ég komst alveg áætlega á skrið með portúgölskuna en ég á samt langt í land og þarf að halda henni við eins mikið og ég get þegar ég kem heim ef ég vil ekki missa allt úr kollinum..því það er fljótt að fara. Margir hrósuðu mér fyrir það að hafa náð henni svona fljótt á þessum stutta tíma á meðan aðrir voru stundum óþolinmóðir og skildu ekki afhverju ég talaði ekki betur. En við erum líka eins misjöfn og við erum mörg.

Ég ferðaðist alveg slatta á þessum tíma mínum hér. Skrapp tvisvar sinnum til Tofo-Inhambane og einusinni til Bilene. Svo fór ég í 4 vikur til Suður Afríku og ferðaðist þar til Pretoria, Jóhannesarborgar, Klerksdorp, Cape Town og Kruger Park en þar fór ég í safari. Ég fór svo líka til Swaziands á tónlistarhátíðina Bushfire. Það var stórkostlegt! Núna um daginn fór ég svo í sólahringsferð til Gaza og heimsótti fjölskyldu yfirmanns AJUDE. Það var ósköp notalegt að komast aðeins út ösinni í algjört rafmagnsleysi og rólegheit.

En ég get endalaust talið upp þá hluti sem ég athafðist við á þessum tíma en þá yrði þessi færsla margar blaðsíður. Það sem er fyrir öllu að þetta ferðalag er búið að vera draumi líkast og ég hefði aldrei haldið að ég myndi láta verða að þessu. Hugmyndin sem ég fékk í hausinn fyrir rúmum 3 árum er bráðum á enda! En einhvernveginn hef ég það á tilfinningunni að þetta sé bara byrjunin.

Að lokum þá langar mig að biðja ykkur sem nennið að lesa færslurnar mínar um örilítin greiða ef þið sjáið ykkur það fært. En áður en ég fór var ég mikið að spá í því að safna saman einhverjum smá aur til að geta nýtt sem stuðning við verkefnið mitt en ég lét aldrei verða að því þar sem ég vissi í raun ekki hvort þess þyrfti eða í hvað ég gæti notað hann. En núna er ég búin að sjá að eitt stærtsta vandamálið hjá stelpunum er skortur á stílabókum, pennum og blýöntum. Þær fá bækur af og til en eru fljótar að fylla þær af verkefnum og sumar eru fljótar að tína þeim. Tala nú svo ekki um að þær eru ansi duglegar að stela frá hvor annarri því ekki er nóg til af öllu. Þetta var eitt af því sem gerði hlutina svoldið erfiða fyrir okkur sjálfboðaliðana því við gátum ekki endalaust gefið af pennum og bókum.
En þessvegna langar mig rosalega að athuga hvort ég geti safnað saman smá pening svo ég geti skilið eftir bunka af þessum hlutum þegar ég fer. Þetta er ekki að kosta mjög mikið en til að miða við þá er kannski ein góð harðspjalda stílabók að kosta frá 40 ISK upp í 100 ISK. Penni gæti kostað ca. 20 ISK og blýantur kannski svipað. Svo mun ég gera mitt besta að prútta verðin niður á markaðnum. En þar sem mig langar að geta gefið vel af þessum hlutum þá leita ég eftir ykkar aðstoð. Mér þætti ofboðslega vænt um ef þið gætuð séð af örfáum hundraðköllum fyrir stelpurnar mínar. Ég set reiknisnúmer hér fyrir neðan og mun svo setja inn myndir af herlegheitunum þegarveg verð búin að afhenda þeim góssið!

Reiknisnúmer: 0156-05-060567
Kennitala: 300791-3289

En annars ætla ég ekki að hafa þetta lengra í bili. Ég mun eflaust skella inn lokafærslu seinna.

Takk fyrir mig!

Hildur

sunnudagur, 24. apríl 2016

Hálfleikur!

Mér bárust þær fréttir úr norðri að fólki væri farið að lengja eftir nýrri færslu frá mér héðan úr Mósambík svo þá er eins gott að setjast niður og pára eitthvað sniðugt niður. Ég mun seint fá viðurkenningu fyrir besta bloggara ársins en það var nú eitthvað sem ég vissi og hef alltaf vitað. Stundum líður tíminn bara svo hratt og stundum hefur maður sig ekki alveg í það að setjast niður og skrifa.
Það er als ekki auðvelt að reyna að útskýra fyrir þeim sem heima eru þær upplifanir sem maður gengur í gegnum á hverjum degi í nýju landi eins og þessu. Megnið af því sem ég skrifa fer í mína persónulegu dagbók því mikið af því sem maður er að upplifa nýtt fer fram innra með manni sjálfum og sumt á því bara heima í þeirri bók.

En annars gengur lífið hér ósköp vel.  Veðrið er náttúrlega bara yndislegt en stundum alveg aðeins of heitt fyrir minn smekk en ótrúlegt hvað maður venst því samt fljótt. Ég finn aðallega fyrir því þegar hitastigið skríður nálægt 40 gráðunum eða jafnvel ofar. Það er hálf óbærilegt og þá geri ég lítið annað en að sofa og slappa af. En 30 gráðurnar eru orðnar ósköp notalegar bara. Um daginn kólnaði í nokkra daga og fór næturhitinn alveg niður í 16 gráður. Ég neita því ekki að mér fannst það bara helvíti gott (afsakið orðbragðið) en ég hafði ekki sofið jafn vel og ég svaf þá nótt síðan ég mætti. Gott að geta kúrt undir hlýju teppi í stað þess að sofa nánast ber án ábreiðu í svitakófi. Svo er það alveg yndislegt líka þegar það kemur skyndilega rigningarský. Þá hvessir allasvakalega þessari fersku golu og allt fer fjandans til, en það er bara eitthvað svo frískandi við smá skúr, sem myndi þó kallast hellidemba á íslenskum mælikvarða.
Vinnan er einnig ljómandi fín. Engin hörkuvinna svosem, dunda við það að aðstoða skvísurnar við heimaverkefni eins vel og ég get þar sem allt er að sjálfsögðu á portúgölsku. Þeim finnst ekki leiðinlegt að leika sér í símanum mínum og skemmtilegast finnst þeim að leika sér með „filterana“ á Snapchat-inu. Ég reyni nú samt að halda því í minnihluta og finna eitthvað fjölbreyttara að gera með þeim. Ég tók með mér litla SUDOKU bók og þær eldri hafa mikið gaman af því að leysa þær þrautir og alveg magnað hvað sumar eru orðnar góðar í því. Taka eina þraut á korteri eða svo! Svo tókum við einn dag um daginn þar sem ég kenndi þeim að hnýta vinaarmbönd og þeim fannst það nú ekki leiðinlegt. Sumar voru enga stund að ná aðferðinni og fóru strax í erfiðari útgáfu á meðan litlurnar sættu sig við að gera fallega fléttu. Mér leið í smástund eins og textíl-kennara og varð hugsað til hennar Boggu sem kenndi mér handment á sínum tíma. Ég tek ofan fyrir henni og öðrum kennurum yfir höfðu þar sem þau kölluðu á mig ca. 5 sinnum á sekúndu: „Tia Ilda! Tia Ilda! Tia Ilda!“ „Ajudar-me! Ajudar-me!“ „Assim?? Como isso??“

Portúgalskan er öll að koma til og ég farin að geta tjáð mig ágætlega við fólkið í kringum mig og á götunni þegar ég versla og þessháttar. Það er líka daglegt brauð að lenda á góðu spjalli við næsta mann hvort sem það er í Chapa eða bara á röltinu svo ég fæ aldeilis æfingu á hverjum degi. Stundum verð ég samt virkilega óþinmóð þegar ég næ ekki að tjá mig almennilega og væri til í að tala málið reiprennandi helst í gær! En það verður víst aldrei svo á þessum „stutta“ tíma mínum hér. Ég þarf bara að vera duglega að halda því við eftir að ég kem heim svo ég missi það ekki alveg niður.
Nú eru liðnir rúmir 3 mánuðir síðan ég mætti og alveg ótrúlegt hvað tíminn líður. Ég er ekki ennþá búin að ferðast útfyrir landamærin fyrir utan þau skipti sem ég þarf aðfara þangað og fá stympil í vegabréfið. En planið er að fara til Swasilands í endaðan maí á tónlistarhátíð sem heitir Bushfire. Svo ætla ég mér að fara í Safari til Suður Afríku og á mjög líklega eftir að heimsækja Cape Town og fleiri staði þar. Hefði svo verið til í að ferðast norður hér í Mósambík en það ríkja miklar götuóeirðir fyrir norðan svo fólki er ráðlagt að vera ekki mikið á ferðinni þangað nema með flugi. Flugið er avleg fáránlega dýrt innanlands (kannast nú svosem við það) svo ég læt eflaust ekki verða að því í þetta skiptið.

Ég var spurð að því um daginn hvað ég héldi að væri mesta menningarsjokkið sem ég hefði fengið hingað til og þurfti nú aðeins að hugsa mig um áður en ég náði að svara þeirri spurningu. Ég tel mig algjörlega hafa dottið í lukkupottinn með „Host-fjölskyldu“. Ég er með sér herbergi sem er svona ljómandi fínt bara, þrátt fyrir stöku gesti eins og eðlur, köngulær og kakkalakka. Ég er með dúndur gott rúm að mínu mati og finnst ekkert betra en að koma heim og hlamma mér í rúmið eftir langan heitan dag. Hér er næstum alltaf rennandi vatn og ég fer í „venjulega“ sturtu á meðan vinkona mín baðar sig uppúr fötu. Vissulega er vatnið alltaf kallt en það er bara nákvæmlega það sem maður vill í 30 stiga hita. Ég fæ oftast nóg að borða, kjúkling, hrísgrjón, grænmeti og ávexti. Einstaka sinnum dettur rafmagnið út en ég er nú bara vön því þar sem ég ólst upp á vestfjörðum og kippi mér nú ekki mikið upp við smá rafmagnsleysi. Ég eyði kvöldunum mínum oft hérna heima með mömmu Claudinu og horfi á Braselískar sápuóperur á meðan við borðum papaya úr garðinum svo þetta er allt voða heimilislegt. Þar með get ég ekki sagt að ég hafi fengið mikið sjokk hérna heimafyrir.
Ég held að það sem er mest öðruvísi fyrir mér og það sem mér finnst ennþá erfitt í dag er það fá að upplifa það að vera öðruvísi. Ég fer aldrei út án þess að það sé horft á mig, bent og helgið. Oftast er það ekki illa meint og venjulega gefur fólk sér á tal við mig eða heilsar. En stundum fé ég líka skítakomment eins og „Þetta land er ekki staður fyrir hvítingja (mulungo)!“. Stundum lendi ég í því að strákurinn við hliðina á mér byrjar að spjalla við mig á leiðinni í chapa-num og endar svo á því að biðja mig um að borga fyrir sig því hann segist vita að ég eigi sand af seðlum. Stundum þegar ég labba útá götu kemur heimilislausi maðurinn að mér og snertir á mér handlegginn, hvort hann heldur að það boði honum gæfu að hafa komið við hvíta manneskju ég veit það ekki. En sumir viðast halda það.
Verst finnst mér svo þegar krúttlegu stelpurnar í vinnunni minni segja alltí einu uppúr þurru: „Iss hvíta fólkið gerir þetta alltaf svona!“ Hvítt þetta svart hitt...það fer rosalega fyrir brjóstið á mér. En ég veit það samt innst inni að þær tala bara nákvæmlega það sem þær heyra frá fullorðna fólkinu enda eru þetta oftast þær eldri sem segja þessa hluti. Því eitt sem ég hef lært er það að krakkar eru alltaf eins sama hvaðan þeir koma.  Skýr og hreinskilin. Það er ekki fyrr en við fullorðna fólkið segjum hitt og þetta fyrir framan þau sem veldur því að þau telja þá hluti vera rétta og sanna og þar með eru þau orðin menguð af allskonar „bulli“. Litlurnar haga sér nefnilega allt öðruvísi. Finnst bara spennandi að skoða húðina á mér því hún er öðruvísi með allskonar fæðingarblettum og frekknum sem þær hafa ekki. Svo er hárið á mér svo mjúgt og ljóst og fallegt. Þær spurðu mig meira að segja um daginn hvort þær mættu fá að sjá á mér geirvörtuna því þær voru svo forvitnar að vita hvernig hún væri á litin fyrst ég væri hvít.

En alltsaman er þetta að sjálfsögðu eitt stórt sjokk því hlutirnir eru allir öðruvísi en heima. Hvernig fólk heilsast og kveður. Hvernig fólk talar og hagar sér við nágungann. Hvernig fólk skammar börnin sín og hvernig konurnar bera þau á bakinu allan daginn. Hvernig fólk flytur allt frá þungum pokum yfir í stór húsgögn á höfðinu einfaldlega af því það er auðveldara. Hvernig fólk gerir allt til að vinna sér inn smá pening, hvort sem það er að grilla maís á næsta götuhorni og selja eða ganga á milli bíla með nauðsynlega hluti fyrir bílinn.
Allskonar litlir hlutir sem er gott að sjá og læra af. Það er líka alltsaman partur af prógramminu 

Þangað til næst
Ykkar amiga, Hildur

sunnudagur, 7. febrúar 2016

"Ehh! Molungo!!"

Todo para cima vai voltar para baixa outra vez.

Það er alveg yndislegt að ferðast yfir á hinn enda hnattarins til að upplifa nýja menningu, kynnast nýju fólki og virða fyrir sér stórkostlega náttúru. Það er ofboðlsega hollt og þroskandi að takast á við öll þau nýju verkefni sem birtast manni á hverjum degi og finna hvernig þau gera mann sterkari með hverju skrefinu. Það er einnig mjög átakanlegt að horfa uppá misgóðar aðstæður fólksins í landinu sem maður heimsækir og fljótlega áttar maður sig á því hversu hjálparlítill maður er. Enda þarf fleiri en einn til ef planið er að bjarga heiminum.
Nú eru næstum því komnar þrjár vikur hérna í Moz. Alveg magnað hvað tíminn líður hratt. Þetta er allt saman búið að vera svo ótrúlega æðislegt hingað til. Svo gott að hafa sólina, komast á ströndina og njóta þess að gera allt og ekkert. Það tekur smá tíma að venjast menningunni hérna. Umferðin er vinstra meginn og ég er nýfarin að líta fyrst til hægri þegar ég fer yfir götu en fyrstu dagana kíkti ég alltaf til vinstri. Þetta er alveg ótrúlega ruglandi. Það að beygja til vinstri inn í hringtorg er líka ótrúlega furðulegt. Alveg magnaðar þessar litlu venjur sem maður pælir aldrei í dags daglega. Svo er það gönguumferðin. Hún er að sjálfsögðu vinstri umferð líka! Ég skildi það ekki hvers vegna allir löbbuðu alltaf í veg fyrir mig þegar ég mætti fólki, þangaði til ég áttaði mig á því að ég var að labba vitlausu meginn við manneskjuna. Umferðarljósin skipta ekkert eins miklu máli og heima, þau virðast vera meira til viðmiðunar og gangbrautir eru á mjög skortnum skammti. Það er þessvegna alltaf mikil áhætta ef þú þarft að fara yfir götuna. Oftast þarf maður bara að mjaka sér inná miðja götuna og hlaupa um leið og það kemur smá gat í bílarununa. En þetta eru allt saman hlutir sem venjast með tímanum.
Það eru líka alveg hlutir sem fara nett í taugarnar og þá sérstaklega þegar allt gengur á afturfótunum. Maginn með vesen, manni svíður í moskítóbitin, fötin rennandi blaut af svita, vatnið búið í flöskunni og þú átt eftir að finna Chapa til að komast heim fyrir myrkur sem venjulega tekur rétt rúman klukkutíma. Þá er ekkert ofboðslega gaman þegar annarhver karlmaður kallar "eeehh Molungoo!" (white person) á eftir þér og bendir. Þú verður logandi hrædd þegar einn útigansmaðurinn hugsaði sér gott til glóðarinnar og ákvað að elta þig norkkar húsaraðir í von um að hann fengi eitthvað frá þér, af því að jú þú ert hvít og átt þá væntanlega pening. Það fer líka óþarflega mikið fyrir brjóstið á þér þegar þú ert rukkuð um helmingi meira í Chapa-num en allir hinir, bara vegna þess að þú ert hvít. Þú bölvar því að vera hærri en 1.60 því chapa-r eru víst ekki hannaðir fyrir fólk sem er hærra en það. Þú ert ofboðslega pirruð á því að geta ekki tjáð þig almennilega því það er víst ógerlegt að læra nýtt tungumál á einni nóttu. Þolinmæðin er gjörsamlega á þrotum og þig langar mest að setjast niður og grenja.
En það eru samt þessar stundir sem fá þig til að staldra við og rifja það upp hversvegna í ósköpunum þú ert hérna lengst útí buskanum. Öll vinnan sem þú lagðir í það að komast alla þessa leið og upplifa drauminn þinn. Svo þú gleypir kökkinn, ferð heim í kalda sturtu, æfir nýtt lag á ukulele-ið og feðr snemma að sofa.
Því morgunndagurinn bíður með fleiri ævintýri og upplfanir.

Ykkar Hildur.

sunnudagur, 31. janúar 2016

Mósambík, vika 1.

Ótrúlegt að það sé bara liðin ein vika. Það er svo margt búið að ganga á og ég búin að gera svo ótal margt.
Ég fór strax til fjölskyldunnar sem ég verð hjá á fyrsta degi. Ég var búin að fá þær upplýsingar að ég myndi búa hjá einstæðri konu sem ætti þrjú börn sem byggju á heimilinu. En það hefur greinilega eitthvað breyst áður en ég kom því "Host Mamma" mín er 78 ára gömul kona og öll hennar börn farin að heiman. En hún er algjört yndi. Hún getur ekki gengið þar sem hún bakbrotnaði einhverntíman, en hún notar göngugrind til að komast út úr húsinu og út í garð. Svo situr hún venjulega á stéttinni í garðinum og dundar við verkefni dagsins. Hún er með 150 hænur sem hún ræktar svo nokkrum sinnum í viku eru litlir ungar inni í eldhúsi í kassa sem veita mér félagsskap yfir morgunmatnum. Fyrsta morguninn vaknaði ég við þvílík læti í hænunum og ég skyldi ekkert hvað var í gangi, en þegar ég svo fór framúr þá sat vinnufólkið hennar við að reita ca. 30 kjúklilnga. Svo ég borða ansi mikið af kjúkling, en hann er líka bara ljómandi góður og ég þarf ekki að hafa áhyggjur af neinu þar sem hann er "fresh"!
Ég er mjög heppin með það að mamma mín, sem heitir Claudina, talar örlitla ensku, svo við getum átt ágætist samskipti. Það er líka gott uppá það að þá læri ég portúgölskuna ennþá hraðar. Herbergið mitt er rosa fínt, er með tvíbreitt rúm næstum og kommóðu. Ég bjóst alls ekki við því að það yrði svona flott. Bjóst allra síst við kommóðunni. Hún er gömul og lúin og allskonar vefir ofan í skúffunum en ég er þakklát fyrir það að þurfa ekki að búa í bakpokanum í 6 mánuði.
Ég á eina systur hjá Claudinu sem er líka sjálfboðaliði. Hún er búin að vera hér í 3 vikur og á eina viku eftir. Stutt stopp hjá henni en ég var líka mjög þakklát að hafa einhvern sem ég gat spjallað við á ensku. Hún gat líka sýnt mér umhverfið og sagt mér svona helstu venjur og siði á heimilinu. Hún heitir Sandiha og er frá Sviss en á indverska foreldra. Hún er 26 ára og er að fara að gifta sig þegar hún kemur heim. Fyrstu helgina fór ég með henni til Bilene, en það er strönd nokkrar klukkustundir í norður frá Maputo. Hana vantaði félagsskap í ferðalagið og ég sló ekki hendinni á móti því að komast á ströndina strax fyrstu helgina.
Á sunnudeginum fór ég svo að heimsækja verkefnið mitt og hitti prestinn sem sér um skólann. Hann talaði nú bara portúgölsku en bauð mig hjartanlega velkomna. Daginn eftir fór ég fyrsta daginn í vinnunna. Tók mig smá tíma að læra inná "Chapa" dæmið, en það reddaðist á endanum og ég komst alla leið. Portúgölskukennslan byrjaði líka á mánudeginum. Við erum tvær saman, ég og Sarah.
Söru kynntist ég í flugvélinni. Alveg ótrúleg tilviljun, en hún sat fyrir framan mig í vélinni allan tíman, semsagt í rúmar 10 klukkustundir. Svo þurfti hún að skreppa á klósettið á meðan við biðum í Jóhannesborg og bað mig að fylgjast með töskunni sinni á meðan. Ekki málið! Hún er dökk á hörund og með afró hár svo mér datt ekkert annað í hug en að hún ætti annaðhvort heima í Mzbq eða væri að koma til að heimsækja ættingja. Svo stóðum við í sömu röð við vegabréfaeftirlitið, svo ég ákvað að spurja hana hvort hún væri "local". Þá sagði hún mér að hún væri að koma frá Þýskalandi og væri sjálfboðaliði á vegum AJUDE. Þvílíka tilviljunin! AJUDE er í skrifstofan í Þýskalandi. AJUDE og ICYE eru semsagt svipuð samtök sem vinna mikið saman og ég er á vegum ICYE. Ég sagði náttúrlega bara "Í alvöru! Ég líka!!!". Það var alveg eins og við hefðum þekkst alla æfi eða að minnsta kosti eins og við hefðum átt að hittast. Rosalega góð tilfinning að hafa stuðning af annari manneskju sem er að ganga í gegnum allt það nákvæmlega sama. Hún er 24, fædd nákvæmlega mánuði á undan mér, svo við vorum fljótar að verða nánar.
Við Sarah og Sandy fórum saman í danstíma í þjóðardansi Mozambique. Það var nú meira púlið! Ekkert nema hopp og skopp, í takt við "live" trommur. En mikið rosalega var það skemmtilegt. Svitnaði fyrir allan peninginn.
Svo erum við að sjálfsögðu aðeins búnar að kíkja útá lífið og sjá hvernig bærinn lifnar við á kvöldinn. Hér er mikið um lifandi tónlist allstaðar, sem mér finnst nú ekki leiðinlegt. Bonny sem er tengiliðurinn okkar hérna sagði að ég hefði 3 vikur til að fara upp á svið og syngja með. Aldrei að vita!
Annars leggst þetta allt saman rosalega vel í mig. Að sjálfsögðu er menningin hér allt önnur en heima en ég held ég verði ekkert rosalega lengi að venjast. Eitt tildæmis er tíminn. Tíminn er rosalega afstæður hérna í Mzbq. Fólk er ekkert að flýta sér. Það að mæta á réttum tíma þýðir mjög oft tveimur tímum eftir áætlaðan tíma. Svo ég passa alveg ágætlega inní þá rútínu hehe, þeir sem þekkja mig sem "Hildur sem er alltaf að minnsta kosti 5 mínútum of sein".
En já þetta byrjar ofboðslega vel, núna sit ég á Hosteli sem heitir Fatimas
á Tofo ströndinni. Það er önnur strönd ennþá norðar en Maputo. Tók okkur góða 10 tíma að komast hingað en VÁ, svo þess virði!

Hlakka ofboðslega mikið til næstu 6 mánaða og ég veit að ég mun taka þetta í nefið og njóta í botn! 6 mánuðir líða ansi hratt.

Þangað til næst,
ykkar Hildur <3

sunnudagur, 24. janúar 2016

Istanbúl

Þá er skvísan mætt á flugvöllinn í Istanbúl. Flugið frá London var ekki nema 4 klst, en ég var að reikna með 6. Mín var ekki búin að pæla í timamismuninum. Svo nú tekur við bið í rúma 6 tíma þar til vélin mín fer til Mapútó. Ég var innrituð alla leið þangað svo ég þurfti ekkert að spá í bakpokanum mínum sem er heví næs. Get bara spókað mig um með litlu grænu handfarangurstöskuna mína, sem er full af litabókum og litum, blöðrum, boltum og snúsnú. En þar sem ég var innrituð alla leið þá þurfti ég ekkert að fara aftur í gegnum hlið sem var líka heví næs, og ég fór beint inn í hlutann þar sem eru einungis tengiflug. Þar var nú meira "kaosið". Fólk út um allt og allir annaðhvort að fara út eða koma inn. Pínu lítið svæði með smá matsölustað í miðjunn og á fimm mínútna fresti opnuðust rennihurðir til að hleypa fólki út.
Mér var skítkalt þar sem ég var svo góðhjörtuð að ég gaf úlpuna mína í London. Fór með hana í "Lost baggage" og spurði strákana þar hvort þeir myndu ekki geta komið henni eitthvert annað en í ruslið ef ég afhenti þeim hana. Annar sagði, "sorry mam', it will go right in the bin". En hinn drengurinn sagði að hann gæti komið henni í góðar hendur, það væri nefnilega "einhvers-lensk" kona (man ekki hvaða land hann sagði) sem ynni á annari skrifstofu sem gæti örugglega komið henni á góðan stað. Ég steingleymdi náttúrulega að taka mynd af þessum merka atburði. En þið sjáið þetta svosem alveg fyrir ykkur.
Mér varð alveg hugsað til úlpunnar þegar ég labba út úr flugvélinni hérna í Istanbúl þar sem við þurftum að taka strætó og það var bara ansi kalt. Krúttlegi íranski kallinn sem sat við hliðina á mér í vélinni tilkynnti mér það líka að í gær hefði snjóað og fluginu hans hafði verið snúið við í gær vegna þess.
Ég sá ekki alveg fram á að ætla að vera þarna niðri í þessum hrærigraut í 6 klukkutíma plús, svo ég rölti upp og sit núna í afskaplega afslöppuðu umhverfi með mjúkum sætum og hér er bara nokkuð hlýtt. Karlarnir sem sitja í röðinni fyrir aftan mig voru svo huggulegir að fylgjast með töskunni minni á meðan ég skrapp og keypti mér vatn. Þeir skildu þó ekki vott af ensku svo ég þurfti að spurja þá á táknmáli og með bendingum. En maður reddar sér nú í sveitinni er það ekki??

Það eru engar upplýsingar komnar um hliðið mitt, en á meðan ég bíð ætla ég bara að hjúfra mig undir stóra klútinn minn og lesa nokkrar blaðsíður í "Wild" á spjaldtölvunni. Ég næ engu neti hérna þar sem maður þarf að eiga tyrkneskt símanúmer til að skrá sig inn. Rosa sniðugt, eða þannig. Svo ég pósta þessari færslu einhverntímann þegar ég kemst í tengingu.

Er óendanlega spennt fyrir því að komast alla leið, og ég er nokkuð viss um að ég mun ekki hugsa til úlpunnar minnar aftur, að minnsta kosti næstu sex mánuðina.

Þangað til næst!

Hildur ❤

mánudagur, 18. janúar 2016

Fyrsta stopp - London!!

I augnablikinu sit eg a huggulegum veitingarstad i midri London, nanartiltekid rett hja Oxfordstreet. Eftir ad hafa eytt deginum i turistagongutur um borgina og endad hann svo a sma budarrapi sa eg ekkert annad fyrir mer en burger og iskaldan bjor.
Stadurinn heitir Garfunkel's og var thad fyrsta sem eg sa sem seldi bjor og burger a vidradanlegu verdi og var me friu Wifi! Fyrir valinu matsedlinum vard Black and Blue burger, med gradosti og laukringjum, og iskold Stella.

Alveg otrulegt ad thad se bara komid ad thessu. AEvintyraferdalagid mitt er hafid!! Eg vidurkenni thad alveg ad eg var i toluvert mikilli gedshraeringu a leidinni uppa flugvoll i gaer og um leid og eg gekk inn i flugstodina var eins og einhver hefdi gjorsamlega slokkt a heilanum minum.
Eg byrjadi a thvi ad gleyma flugmidanum minum i "selfcheck-in" velinni, gleymdi thvi svo ad eg vaeri med halffullan vatnsbrusa i toskunni sem for a bandid hja vopnaleitinni og thad pippti a mig i hlidinu thar sem eg gleymdi ad taka heyrnatolin min ur vasanum og urid af hendinni.

(var að fatta að ég gæti stillt lyklaborðið á íslensku svo restin verður ekki eins torlesin hehehe)

Þegar ég kom svo inn í fríhöfn mundi ég ekkert hvað ég ætlaði að kaupa en sem betur fer var ég vitur fyrirfram og hafði skrifað innkaupalista.
Svo þegar ég fór að heilsa öllum í Fríhöfninni og fá fullt af knúsum þá fór ég öll að róast en það er bara mjög furðuleg tilfinning að fara af stað svona ein.
Ég fékk að geyma draslið mitti inná kaffistofu svo ég gat verslað almennilega án þess að hafa það með mér í eftirdragi. Svo hitti ég pabba kallinn í suðurbyggingunni hjá hliðinu mínu og hann sat með mér og rölti svo með mér útað hliði. Það munaði samt ekki miklu að ég hefði bara misst af vélinni þar sem skjárinn var víst eitthvað bilaður við hliðið og það kom aldrei "boarding" tilkynning svo við vorum sultuslök.
Guð minn góður hvað það var erfitt að fara útí vél og takast á loft. Ég þurfti að hafa mig alla við að grenja ekki úr mér augun, en þar sem ég sat við hliðina á gömlu krúttlegu pari þá náði ég að hemja mig. Það láku bara nokkur tár. Það voru bara svo margar tilfinningar í hrærigraut í maganum á mér. Að sjálfsögðu örlítill söknuður og stress, en fyrst og fremst tilhlökkun gleði. Þetta er í alvörunni að fara að gerast!! Þetta ER að gerast!!!
Það var ekkert vandamál fyrir mig að komast á áfangastað hérna í London þar sem ég hafði fengið svo góða leiðarlýsingu frá stelpunni sem ég gisti hjá.
Ég gisti semsagt hjá ungu pari í East Ham en ég fann þau í gegnum Couchsurfing (sem er mesta snilld í heimi, og ef þið vitið ekki hvað það er GO FIND OUT!) Þau eiga einn 2ja ára strák, eina 5 mánaða stelpu og tvo ketti.
Þegar ég kom voru þau réttófarin út úr dyrunum en þau voru á leið í kirkju. Þau eru nýtrúa (veit ekki hvort það sé rétta orðið) og það voru 5 ár akkúrat í gær síðan kirkjan þeirra var stofnuð. Ég ákvað að skella mér með þeim í kirkju og það var alveg ótrúlega mögnuð upplifun. Þetta er Gospel kirkja sem heitir Gospel live London og eins og ég sagði var stofnuð fyrir 5 árum. Hana sækir fólk sem trúir alfarið á Biblíuna og það sem stendur í henni og við messuna í gær voru 150 manns. Fyrstu messuna sátu 20 manns svo þau hafa aldeilis stækkað á 5 árum. Það var haldið uppá 5 árin með mat og köku. Mér fannst mjög skemmtilegt að upplifa þetta með þeim. Endalaus hamingja allstaðar, fullt af litlum háværum börnum útum allt, yndisleg tónlist og söngur. Það heilsuðu mér nánast allir þar sem ég var nýtt andlid og allir þekkjast fyrir. Svo ég sat á rabbi við allskonar fólk og meira að segja sjálfur presturinn heilsaði mér og ég átti dágott spjall við hann um það sem ég er að fara að gera.

Þegar við svo komum heim fór ég fljótlega að sofa. Vindsængin og svefnpokinn sem ég fékk voru það girnilegasta sem ég hafði séð lengi þar sem ég var orðin svo þreytt, enda næstum ósofin frá því um hádegi daginn áður.

Svo fór ég góðan hring hérna í London í dag eins og ég sagði. Tók túbuna að BigBen og London eye. Fékk mér Crépes með nutella og kaffibolla og naut þess að rölta um og vera til. Mjakaði mér svo áleiðis að Covent Garden og Oxford street. Þegar ég spurði hvort að Oxford street væri ekki örugglega í "þessa" átt, sagði maðurinn mér að ég þyrfti að taka strætó númer "þetta" til að komast alla leið þangað, en ég hélt nú ekki. Ég hafði ekkert betra að gera en að rölta og skoða. Enda var það yndislegt. Íslendingurinn þurfti reyndar að kaupa sér húfu þegar leið á daginn þar sem ég tók ekkert svoleiðis með hehe, en mér var orðið ansi kalt.

Nú fer ég bara að koma mér heim og fer eflaust snemma í háttinn aftur í kvöld. Horfi á restina af Ófærð en ég sofnaði yfir honum í gær. Svo er það bara brottför til Istanbúl á morgunn og þaðan fer ég svo til Mapútó.

Ég ætla að gera mitt besta við það að blogga, bæði til að leyfa ykkur heima að fylgjast með mér og fyrir mig sjálfa til að eiga ferðasöguna.

Þangað til næst!

-Hildur